Heildarhagnaður Landfesta ehf. nam 1.028 milljónir króna. Árið áður var hagnaðurinn 2.064 milljónir og dregst hann því saman um rúmlega milljarð milli ára.

Rekstrartekjur ársins 2016 námu 2.760 samanborið við 2.188 árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir árið 2016 nam 1.834 milljónum króna samanborið við 1.748 milljónum árið áður. Fjárfestingareignir námu 25.601 milljón króna árið 2016 miðað við 24.373 milljónir króna árið áður.

Handbært fé frá rekstri nam 1.337 milljónum króna á árinu samanborið við 1.045 milljónum króna árið áður. Matsbreyting hjá félaginu var jákvæð á árinu 2016 og nam 83 milljónum króna en árið áður var matsbreyting jákvæð um 1.772 milljónir króna. Vaxtaberandi skuldir námu 14.964 milljónum króna í lok árs 2016 samanborið við 14.786 milljónir króna í árslok 2015.

Eiginfjárhlutfall félagsins nam 39,5% og hækkaði um 4,7% milli ára. Hagnaður á hlut árið 2016 var 0,62 en var 1,24 árið áður. Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur út árður fyrir árið.

„Landfestar er eitt af fjórum dótturfélögum í samstæðu Eikar fasteignafélags hf. Fasteignir félagsins eru um 36 talsins, telja um tæpa 105 þús. útleigufermetra, leigueiningar eru tæplega 170 og fjöldi leigutaka er yfir 100. Helstu fasteignir félagsins eru Pósthússtræti 2, Borgartún 21, 21a og 26 og Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær),“ er tekið fram í afkomutilkynningu félagsins.