Landhelgisgæslan ætlar að krefja tryggingafélag flutningaskipsins Fernöndu um tugi milljóna króna vegna björgunar á skipinu eftir að eldur kom upp í því um mánaðamótin. Skipið er ónýtt og verður rifið niður í brotajárn.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við fréttastofu 365 miðla í hádeginu gæsluna hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa og vísaði til þess að í siglingalögum er gert ráð fyrir að hægt sé að krefjast greiðslu fyrir að koma í veg fyrir umhverfistjón. Eldurinn kom einmitt upp á hrygningastöðvum úti fyrir ströndum landsins.

Fari svo að björgunarlaunin skili sér fær áhöfn varðskipsins Þórs hluta af þeim. Afgangurinn mun renna í sjóð Landhelgisgæslunnar.