Stór hluti landsmanna, eða tæp 78%, ber mikið traust til Landhelgisgæslunnar samkvæmt nýrri könnun MMR þar sem spurt er um traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála.

Hlutfall landsmanna sem treystir Landhelgisgæslunni er þannig óbreytt frá síðustu könnun MMR frá því í október í fyrra.

Aftur á móti fækkar verulega í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Dómsmálaráðuneytisins, en 24,5% segjast bera mikið traust til þess nú samanborið við 42,3% í október 2009.

Það fækkar jafnframt í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Hæstaréttar, fer úr 46,6% frá í október 2009 í 41,8% nú.

Þá fjölgar í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til ríkislögreglustjóra, fer úr 47,1% í október 2009 í 52,0% nú.

Athygli vekur að 40,3% aðspurðra segjast bera lítið traust til dómskerfisins í heild en 33,1% bera mikið traust til dómskerfisins.

Sjá könnun MMR í heild sinni.