Landið verður gert að einu tollumdæmi og einu tollembætti, hjá embætti tollstjórans í Reykjavík, verður falin öll tollframkvæmd í landinu, samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, hefur lagt fram á Alþingi.

„Frumvarpið miðar að því að auka hagræði og einfalda rekstrarfyrirkomulag, jafnframt því að gera tollstjóra betur í stakk búinn til að sinna hlutverki sínu t.d. með því að auðvelda stefnumótun í tollamálum, skipulagningu tollframkvæmdar og áætlanagerð varðandi tollstarfsemina," segir m.a. í fylgiskjali frumvarpsins.

Í skýringum frumvarpsins segir enn fremur að tilgangur breytinganna sé jafnframt að gera stjórnsýslu tollamála hagfelldari fyrir atvinnulífið, skattborgarana og þar með samfélagið í heild.