„Það er ekki rétt að Nordbank hafi lokað á þessi skuldabréfaviðskipti hjá Landic Property. Það er allt annar banki sem á þarna í hlut, Nordbank er ekki aðili að þessum viðskiptum,“ segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi Landic Property

Páll hafði samband við Viðskiptablaðið vegna fréttar um að HSH Nordbank hafi lokað á lánveitingar til félagsins.

„Það sem er að gerast er það að aðalviðskiptabanki okkar telur að vegna ástandsins á fjármálamörkuðum þurfi hann að endurskoða greiðslur af þessum skuldabréfum. Við erum í samningaviðræðum við þann banka um að finna lausn á þessu máli,“ segir Páll en vill ekki tjá sig um hvaða banka hann á við.

„Þetta er því kolröng frétt hjá Berlingske Tidende enda mun blaðið birta leiðréttingu um það á morgun. Það er ekki heldur rétt í Berlingske að aðalviðskiptabanki okkar hafi lokað á okkur. Við erum í viðræðum við bankann um það hvernig eigi að fara með þetta mál. Þannig að þetta er allt of djúpt í árina tekið hjá Berlingske í þessu efni.“