Stjórnendur Landic Property og danska fjárfestingarfélagsins Stones Invest voru í sambandi um helgina vegna harðra deilna sem upp eru komnar í tengslum við sölu Landic Property á Keops Development til Stones Invest frá í vor.

Stones Invest rifti einhliða kaupsamningnum í lok síðustu viku vegna meintra vanefnda af hálfu Landic Property og gekk raunar skrefinu lengra og fór fram á 250 milljónir danskra króna í skaðabætur, um fjóra milljarða íslenskra króna, vegna trúverðugleikahnekkis og taps á viðskiptavild í kjölfar kaupanna, að því er kom fram í dönskum fjölmiðlum.

Landic Property hefur alfarið hafnað ásökunum Stones Invest og segist hafa uppfyllt öll skilyrði samningsins vegna sölunnar á Keops Development.

Á sama tíma berast fréttir af því að Stones Invest, sem er í eigu athafnamannsins Steen Gude, standi mjög tæpt fjárhagslega og hafi ekki staðið skil á greiðslum vegna fasteignakaupa í Vejle.

Málin rædd um helgina

Annette Brydegaard, talsmaður Stones Invest, og Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Landic Property, segja forsvarsmenn Landic og Stones hafa verið í sambandi um helgina og farið yfir málin saman en einnig hvor í sínu lagi en vildu að öðru leyti ekki tjá sig um gang mála.

„Við teljum engan fót vera fyrir því að rifta kaupunum. En menn munu fara yfir þetta og kanna hvort ekki megi leysa ef það er eitthvað sem þvælist fyrir,“ segir Skarphéðinn.

Aðspurður hvort hugsanlega stefni í langvinnar deilur og málaferli segist Skarphéðinn vonast til að málin leysist en ítrekar að alls enginn grundvöllur hafi verið fyrir einhliða riftun af hálfu Stones Invest.

Segja má að Keops Development, sem var fyrrum þróunararmur Keops fasteignafélagsins sem rann inn í Landic Property, hafi reynst hálfgert vandræðabarn en mikið tap varð af rekstri félagsins, eða hátt í sjö milljarðar íslenskra króna, á síðasta rekstrarári.

Eigið fé þess var neikvætt um 7,7 milljarða um síðustu áramót og því deginum ljósara að Landic Property hefur þurft að leggja því til marga milljarða áður en það var selt til Stones Invest.