Samningar um kaup fasteignafélagsins Landic Property á eignum TM í gömlu Morgunblaðshöllinni og í TM húsinu þar við hliðina á í Aðalstræti voru undirritaðir um helgina. Með kaupunum á Landic Property stærstan hluta húsanna tveggja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landic Property.

Um er að ræða meira en 4000 fermetra af húsnæði. Örn V. Kjartansson framkvæmdastjóri Landic Ísland og Óskar B. Hauksson fjármálastjóri TM undirrituðu samningana. Fram kemur að TM mun í kjölfarið færa starfsemi sína annað.

Örn V. Kjartansson sagði við undirritunina: „Húsnæðið við Aðalstræti er kjörhúsnæði fyrir Landic Property og fellur mjög vel að okkar meginstarfsemi, sem er ekki síst að eiga og reka skrifstofu- og verslunarhúsnæði á miðborgarsvæðinu,“ segir Örn V. Kjartansson í tilkynningunni.

„Mjög lítið framboð hefur verið á góðu skrifstofuhúsnæði í Kvosinni og því er afar jákvætt að geta boðið viðskiptavinum okkar aðstöðu í hjarta borgarinnar. Einnig er ráðgert að lífga upp á svæðið við Ingólfstorg með því að hafa verslanir, kaffihús og slíka starfsemi á neðstu hæðunum.“

Í tilkynningunni kemur fram að Landic Property á orðið umtalsverðar eignir í Kvosinni og kaupin á Aðalstræti 6 og 8 eru góð viðbót í það eignasafn.

Félagið á fyrir Aðalstræti 2, gamla Geysishúsið, þar sem margvísleg starfsemi fer fram, Aðalstræti 12, gamla Ísafoldarhúsið, þar sem veitingastaðurinn Fiskmarkaðurinn er til húsa, og húseignina Aðalstræti 16, þar sem Hótel Reykjavík Centrum er með starfsemi.

Landic Property á einnig Iðuhúsið við Lækjargötu og mestan hluta húsalengjunnar sunnanmegin við Austurstræti frá Ingólfstorgi að Pósthússtræti. Alþingi er stærsti leigutakinn í þeirri húsaröð.

Þá á félagið Pósthússtræti 3 og 5, gamla Pósthúsið, og við Túngötu húseignirnar nr. 6 þar sem Baugur Group er með skrifstofur. Hér eru eingöngu taldar upp eignir Landic Property í Kvosinni, en félagið á mörg önnur hús á miðborgarsvæðinu öllu.