Í Tékklandi er mikil og rík bjórhefð. Þar er málum þannig háttað að bjórinn er í flestum tilvikum ódýrari en aðrir óáfengir drykkir á veitingastöðum í landinu. Leos Heger heilbrigðisráðherra Tékka  stendur í ströngu þessa dagana en hann er að reyna að koma því þannig fyrir að boðið sé upp á allavega einn óáfengan drykk sem sé ódýrari en bjór á veitingastöðum landsins. Fjallað er um málið á vefsíðu Wall Street Journal.

Heger vill skylda veitingastaði og öldurhús til að bjóða upp á að minnsta kosti einn óáfengan drykk sem er ódýrari en bjór og hefur sagt að auðveldasta leiðin fyrir staðina sé að bjóða upp á vatnskönnur. Ástæðan að baki ku vera sú að fólk hafi val og sérstaklega að koma í veg fyrir að fólk undir aldri drekki áfengi.