Sala á sjónvörpum tók kipp hér á landi vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Þetta segir Jón Pétur Hansson, verslunarstjóri í Sjónvarpsmiðstöðinni. Í samanburði við sama árstíma í fyrra er salan umtalsvert meiri í ár.

„Við höfum fundið fyrir því að margir vilja kaupa stærra sjónvarp til að horfa á leiki á mótinu,“ segir Jón.

„Hérna spilar inn í að á þessum árstíma eru að koma inn nýjar týpur af sjónvörpum svo að í mörgum verslunum er hægt að fá góð sjónvörp á mjög góðu verði,“ bætir hann við.

Hann segir veðrið einnig mögulega hafa haft áhrif. „Á móti má þó spyrja hvort fólk vildi þá ekki frekar kaupa sér utanlandsferð og horfa á mótið einhvers staðar í útlöndum. Þannig að ég hugsa að veðrið hafi ekki haft mjög mikil áhrif.“