Birgir Jakobsson landlæknir segir í samtali við fréttastofu RÚV að hann styðji lagasetningu ef það er það sem þarf til að binda enda á verkfall SFR og Sjúkraliðafélag Íslands. Leysa þurfi kjaradeiluna sem fyrst.

Á heimasíðu landlæknaembættisins í dag skrifaði Birgir í pistli að engin ástæða sé til þess að bíða eftir skaðlegum áhrifum verkfallsins, heldur eigi að fylgja fordæmum vorsins og binda enda á það eins fljótt og auðið er.

,,Við vitum að þetta kemur til með að hafa skaðleg áhrif. Þetta leggst ofan á fyrri verkföll. Uppsafnaðan vanda yfir sumarið líka, sumarleyfi starfsfólks, síðan kemur þetta. Þetta kemur til með að hafa skelfilegar afleiðingar," sagði Birgir við fréttastofu RÚV.

,,Stjórnvöld verða að leysa þetta mál á einhvern hátt. Ég hafði svolitla von í gær, að það væri eitthvað að gerast í þessum málum, en ef það er engin lausn í gangi eða í sjónmáli verður að leysa þetta á einn eða annan hátt."

Að lokum sagði hann: ,,Ég styð lagasetningu ef það er það sem þarf."