Búlgarska fasteignafélagið Landmark Properties Bulgaria, sem er að hluta til í eigu Landsbanka Íslands, hefur keypt tvær fasteignir í höfuðborginni Sofíu fyrir 14 milljónir evra, sem samsvarar 1,24 milljörðum króna, sagði talsmaður félagins í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Einn af fjárfestingastjórum félagins, Stoil Vassilev, staðfesti að félagið hefur keypt skrifstofubyggingu í nágrenni flugvallarins í Sofíu fyrir sex milljónir evra, en hluti húsnæðisins er nú þegar leigður flutningafyrirtækinu DHL til langs tíma. Landmark hefur einnig fjárfest átta milljónir evra í skrifstofuhúsnæði, sem verið er að byggja í suðurhluta borgarinnar.

Viðskiptablaðið greindi frá því í apríl síðastliðnum að Landmark hefði ákveðið að fjárfesta tólf milljónir evra, sem samsvarar rúmum milljarði króna, í nýju verslunarsvæði í Búlgaríu. Verslunarsvæðið mun rísa í útjaðri búlgörsku borgarinnar Plovdiv, sem er næst stærsta borg landsins. Áætlað er að framkvæmdum ljúki í lok næsta árs eða byrjun árs 2008. Svæðið verður um 42 þúsund fermetrar að flatarmáli en þar af verða byggingar um 18 þúsund fermetrar. Um helmingur húsnæðisins hefur þegar verið leigður.

Landmark, sem var stofnað í byrjun árs 2005, hefur þá yfirlýstu stefnu að áður en næsta ár er úti nemi heildarfjárfestingar þess samtals 250 milljónum evra, eða 23 milljörðum króna. Félagið er í eigu breska fjárfestingarfélagsins Altima Partners, Landsbankans og Gort Securities, sem á fjölda fasteigna í Bretlandi og einnig húsnæði Radisson SAS-hótelsins í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Landmark áhuga á að reisa fleiri verslunarsvæði í Búlgaríu og hefur skoðað möguleika í borgunum Sofíu, Varna, Burgas, Ruse og Stara Zagora. Félagið hóf að byggja sjö þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði í borginni Varna í fyrra og búist er við að framkvæmdum ljúki árið 2008. Þá hefur lýst því yfir opinberlega að það kanni möguleika á fjárfestingum í fasteignum í Rúmeníu og Serbíu.

Björgólfur Thor Björgólfsson, einn stærsti eigandi Landsbankans, hefur fjárfest töluvert í Búlgaríu í gegnum fjárfestingafélag sitt Novator og samheitalyfjafyrirtækið Actavis. Novator hefur tryggt sér kauprétt að 65% hlut í Bulgarian Telecommunications Company (BTC). Björgólfur Thor hefur einnig tryggt sér 34% hlut í búlgarska bankanum EIBank.