Fyrirtækjasvið Straums Fjárfestingarbanka hf og dótturfélag Straums, Brú Venture Capital hf, leiddu samruna og fjármögnun fyrirtækjanna Enpocket og Landmat, en ásamt Brú eru stærstu fjárfestar í fyrirtækinu bandarísku fjárfestingarsjóðirnir Nokia Venture Partners, Grandbanks Capital og Dolphin Equitiy.

"Þetta er afar jákvætt skref fyrir Landmat og um leið hvatning fyrir íslenska vaxtarfjárfesta. Frumkvöðlar og starfsmenn Landmats eiga hrós skilið fyrir að hafa byggt upp spennandi fyrirtæki og náð góðum árangri á alþjóða markaði. Með þessum samruna verður til stærri og enn sterkari eining með öfluga bakhjarla og fjölbreyttari tekjusamsetningu. Íslenskir hluthafar Landmats hafa staðið þétt við bak fyrirtækisins og átt gott samstarf við Nokia Venture Partners um uppbyggingu þess. Fjárfesting Brúar í sameinuði fyrirtæki tryggir áframhaldandi aðkomu íslenskra áhrifa á framvindu mála, bæði með stjórnarsetu og samstarfi við stjórnendur Enpocket. Þá er samstarf okkar við bandarísku fagfjárfestana ekki síður jákvætt. Slíkt samstarf er mikilvæg forsenda fyrir árangri í útrás íslenskra vaxtarfyrirtækja og við gerum ráð fyrir að frekari samvinna verði við þá í kjölfar þessa," segir Skúli Valberg Ólafsson Forstöðumaður Fyrirtækjasviðs Straums Fjárfestingarbanka og stjórnarmaður í Brú Venture Capital.