Höfundur The Sceptic dálksins hjá Dow Jones Newswires fréttaveitunni hrósar Landsbankanum fyrir hátt hlutfall innlána og segir að hluthafar Northern Rock, breska bankans bágstadda, eigi ekki samúð skilda fyrir að hafa sett traust sitt á stjórnendur hans.

Þeir ættu að íhuga hvernig örlög þessara tveggja banka hafi verið mismunandi að undanförnu. Höfundurinn, Sean Walters, segir að Landsbanka hafi tekist að „venja sig af“ því að treysta á fjármögnun á markaði og hafið breytingar í þá átt löngu áður en lánsfjárkreppan gerði fyrst vart við sig á síðasta ári.

Þetta hafi gert honum kleift að byggja upp traustan fjárhag sinn með yfirtökum, en Landsbanki sé núna nálægt því að taka yfir bankaeignir Close Brothers í félagi við breska verðbréfafyrirtækið Cenkos.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .