Hús Landsbankans við Pólgötu 1 á Ísafirði verður auglýst til sölu um helgina. Til stendur að útibúið flytji yfir götuna, í Hafnarstræti 19, þar sem Sparisjóður Vestfirðinga var áður til húsa, að því er segir á heimasíðu Landsbankans.

Kemur fram að í nýja húsnæðinu sé betri aðstaða og aðgengi fyrir viðskiptavini og starfsfólk, auk þess sem húsnæðið er hagkvæmara og hentar starfseminni betur. „Breytingar á bankaþjónustu valda því að útibúið þarf nú mun minna húsnæði undir starfsemi sína.“

Landsbankahúsið á Ísafirði er á fjórum hæðum, að kjallara og rishæð meðtöldum. Húsið er um 830 fermetrar. Fasteignasala Vestfjarða og Fasteignamiðstöðin annast sölu á húsinu. Landsbankinn áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum í húsið.