Dómari við héraðsdóm Reykjavíkur ákvað í morgun að skipta máli embættis sérstaks saksóknara gegn sex fyrrverandi starfsmönnum gamla Landsbankans upp í tvo minni mál. Fram kom í hádegisfréttum RÚV í dag að þetta væri þvert á vilja saksóknara. Í umfjöllun vb.is um málið í morgun kom fram að hefði verið orðið að ýtrustu kröfum lögmanna sakborninga í málinu þá gætu þau orðið þrjú.

RÚV segir um málið að eftirleiðis verði sá þáttur sem snúi að meintri markaðsmisnotkun með hlutabréf gamla Landsbankans í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni rekinn sér og hefur málinu verið frestað til 15. nóvember. Á meðan fá verjendur Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Ívars Guðjónssonar, fyrrverandi forstöðumanns eigin viðskipta Landsbankans og þeirra Júlíusar Steinars Heiðarssonar og Sindra Sveinssonar frest til að skrifa greinargerð.

Hitt málið snýr að meintu broti í lánveitingum Landsbankans til félaganna Imon og Azaela Resources.

RÚV segir ekki útlit fyrir að réttað verði í málunum fyrr en á næsta ári.