Landsbankinn hefur enn áhuga á sameiningu við Byr hf., sem var reistur á grunni Byrs sparisjóðs. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, fundaði meðal annars með erlendum kröfuhöfum Byrs sparisjóðs í lok síðasta árs og lýsti yfir vilja um samþættingu bankanna ef Byr yrði settur í söluferli.

Langstærstu kröfuhafar Byrs sparisjóðs eru Bayerische Landesbank (BayernLB) og austurríski bankinn Raiffeisen Zentralbank Österreich (RZB) með um 17 milljarða króna kröfu hvor. Það er um helmingur allra krafna sem lýst var í búið. Kröfuhafarnir vonast til að slitastjórn Byrs verði afhent 94,2% hlutafé í Byr á allra næstu vikum. Í kjölfarið muni þeir eignast umrætt hlutafé gegn því að falla frá hluta krafna sinna.

Þarf að vera vinveittur samruni

Steinþór staðfestir að hann hafi hitt helstu erlendu kröfuhafa Byrs í lok síðasta árs. Ástæða fundarins var meðal annars sú að Landsbankinn á líka kröfur á Byr. „Við vildum reyna að skilja hvað þeir ætluðu sér með Byr. Þeir eru að ráða ráðum sínum og við létum þá vita, líkt og við höfum áður lýst yfir í fjölmiðlum, að við hefðum áhuga á að skoða einhverja samþættingu. Ég reikna með því að ef þeir vilji selja bankann þá bjóði þeir hann bara til sölu. Við hefðum alveg áhuga á að skoða það. En þetta þyrfti að vera vinveittur samruni að mínu mati.“

Aðspurður um hvort honum hafi fundist erlendu kröfuhafarnir vera spenntir fyrir því að reka banka á Íslandi segir Steinþór að þeir hafi verið að reyna að átta sig á þeim valmöguleikum sem þeir eiga í stöðunni. „Mér sýndist þeir ekki vera neitt ótrúlega spenntir fyrir því að reka banka hér til langs tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.