Um 50 milljarða króna vantar að lágmarki í gjaldeyri upp á svo Landsbankinn geti greitt að fullu til baka um 300 milljarða króna skuld við gamla Landsbankann. Morgunblaðið segir í dag að slitastjórn gamla bankans geri engu að síður ráð fyrir fullum endurheimtum enda skuldabréf bankans tryggt með sérstökum veðsamningi og Landsbankinn í eigu rikisins. Morgunblaðið segir stóran hluta erlendra eigna Landsbankans, s.s. 188 milljarða lánasafn, vera eignir sem óljóst sé hvort hægt verði að breyta í laust fé í gjaldeyri áður en kemur að þungu afborgunarferli bankans.

Blaðið segir að fyrr í sumar hafi Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, farið þess á leit við slitastjórn gamla Landsbankans að lengt verði í skuldabréfi um tólf ár. Slitastjórnin mun hafa tekið dræmt í tillögur Steinþórs. Verði ekki samið um lengingu skuldabréfsins þarf Landsbankinn að standa straum af yfir 340 milljörðum í gjaldeyri vegna greiðslna á vöxtum og afborgunum á árunum 2014 til 2018, að sögn Morgunblaðsins.