Landsbanki Íslands greiddi samtals 510.600 pund, um 102 milljónir króna, fyrir aðgang að „leikdagsaðstöðu“ á Upton Park, heimavelli West Ham, tímabilið 2007 til 2008.

Um er að ræða aðgang að fyrirmannastúkum vallarins þar sem gestir á vegum bankans gátu snætt og drukkið til viðbótar við það að horfa á knattspyrnuleik. West Ham var á þessum tíma í eigu Björgólfs Guðmundssonar sem var þá líka aðaleigandi Landsbankans.

Þetta kemur fram í ársreikningi West Ham United fyrir umrætt tímabil. Þar kemur einnig fram að félög í eigu Björgólfs lánuðu West Ham 26,6 milljónir punda, um 5,3 milljarða króna, í lok umrædds tímabils.

Auk þess hafði Straumur Burðarás fjárfestingarbanki, sem var í eigu Björgólfsfeðga, farið fyrir margra milljóna punda sambankaláni til West Ham.

Landsbankinn og Björgólfur eru í dag gjaldþrota og eignarhaldsfélag í eigu skilanefndar Straums er aðaleigandi West Ham.