Hagnaður Landsbankans á öðrum fjórðungi ársins var yfir spám og nam 12,0 milljörðum króna, en meðalspá hljóðaði upp á 10,8 milljarða króna. Hreinar rekstrartekjur voru einnig yfir spám, námu 37,0 milljörðum króna en meðalspáin var 36,2 milljarðar króna.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 37% frá fyrsta fjórðungi ársins og námu 20,9 milljörðum króna, en búist var við auknum vaxtatekjum vegna hækkandi verðbólgu.

Þjónustutekjur voru jafn háar og á fyrsta fjórðungi, 10,9 milljarðar króna, og eru þessir fjórðungar þeir tveir hæstu frá upphafi í þjónustutekjum.

Heildareignir jukust lítillega frá fyrsta fjórðungi og námu 3.970 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 10,3% í lok júní og þar af var eiginfjárþáttur A 8,2%.

Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans segir í tilkynningu að afkoma bankans sé mjög góð. Grunntekjur samstæðunnar hafi aukist um 32% á fyrri hluta ársins. Að sama skapi segir Sigurjón að Landsbankinn muni halda áfram að styrkja innlánaþáttinn í fjármögnun sinni, en nú hafa alls 350.000 manns opnað svokallaðan IceSave reikning sem bankinn býður upp á.

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri, segir í tilkynningu að góðri afkomu Landsbankans sé að þakka góðum gjaldeyris- og verðtryggingarjöfnuði.

Hægt er að skoða árshlutauppgjör Landsbankans hér .