Dótturfyrirtæki Landsbankans, Landsbanki Kepler, sem starfar á meginlandi Evrópu, er í efstu sætum í mörgum lykilflokkum í skoðanakönnun Thomson Extel 2008.

Landsbanki Kepler fékk 47 verðlaun sex Evrópulöndum, þar á meðal 16 verðlaun fyrir greiningu á sértækum g eirum og 31 fyrir bestu hlutabréfagreinendur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

„Niðurstöðurnar lýsa sérfræðiáliti rúmlega 7.500 fagfjárfesta frá 63 löndum.  Þetta er því talið víðtækasta mat verðbréfamiðlunar í Evrópu,“ segir í tilkynningunni.

Landsbanki Kepler var í efstu 10 sætunum í greiningu á löndum í öllum 6 löndunum þar sem hann annast hlutabréfagreiningu.

Í tilkynningunni kemur fram að hápunkturinn hafi verið fyrsta sæti fyrir greiningu á Sviss. Bankinn var í fjórða sæti fyrir Spán og fimmta fyrir Þýskaland.

Varðandi ákveðna geira fékk var Landsbanki Kepler meðal tíu efstu fyrir lúxusvörur, hugbúnað og upplýsingatækni og drykkjarvörur.

„Það er frábær árangur að hafa hlotið þessa viðurkenningu fyrir framúrskarandi greiningar starfsfólks okkar og góða þjónustu um alla Evrópu. Þessi verðlaun undirstrika sérfræðiþekkingu okkar og mikinn vöxt í hlutabréfagreiningum á meginlandi Evrópu, þar á meðal á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Við erum sérlega stolt af því hve hátt við skorum í greiningu á löndum sem staðfestir, enn og aftur, hugmynd Landsbankans um staðbundna þekkingu sem nær yfir alla Evrópu. Meira en 100 greinendur starfa nú hjá Landsbankanum og fylgjast með rúmlega 800 fyrirtækjum en það er 87% af markaðsvirði evrópska markaðarins,” segja Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, bankastjórar Landsbankans í tilkynningunni.

Að lokum var sérstök viðurkenning fyrir greiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum en þar var bankinn í fjórða sæti í Evrópu.