Hagnaður Landsbankans nam 2,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 3,5 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu frá bankanum segir að samanlagður hagnaður fyrstu níu mánuði ársins nemi tæpum 27 milljörðum króna, en stór hluti þess hagnaðar komi til vegna hækkunar á hlutabréfum í eigu dótturfélags bankans, Horns fjárfestingarfélags, á fyrsta ársfjórðungi. Arðsemi eigin fjár af rekstri bankans var 4,8% á þriðja ársfjórðungi en samanlögð arðsemi eigin fjár fyrstu níu mánuði ársins er 18,2%.

Virðisrýrnun á útlánasafni til einstaklinga á þriðja ársfjórðungi nemur 1,4 milljarði króna. Virðisaukning lánasafns bankans til fyrirtækja nemur hins vegar 8,3 milljörðum króna á sama tíma, en stærstur hluti hennar rennur til LBI hf. (gamla Landsbankans). Þegar allt er reiknað fyrstu níu mánuði ársins hefur virðisaukning lánasafns bankans skilað tæpum 800 milljónum króna til rekstrar Landsbankans hf.

Skilar 17 milljörðum til gamla bankans

Eiginfjárhlutfall Landsbankans er nú 23,6% og hefur hækkað um 6,3 prósentur frá sama tíma á síðasta ári. Í tilkynningunni kemur fram að framlag til gamla bankans í formi vaxtagreiðslna af skuldarbréfi og uppgjörssamningi á árinu 2011 er um 17 milljarðar króna. Vanskil á útlánum hafa dregist saman, en hlutfall vanskila yfir 90 dögum er nú um 14,5%, en var um 24,5% um mitt þetta ár. Hreinar rekstrartekjur námu alls 39,7 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins samanborið við 28,0 milljarða króna á sama tímabili árið 2010. Munurinn skýrist að stórum hluta af gengisbreytingum á hlutabréfum í eigu Horns fjárfestingafélags hf. Á þriðja ársfjórðungi námu hreinar rekstrartekjur 7,9 milljörðum króna samanborið við 9,6 milljarða þriðja ársfjórðungi 2010.

Vaxtamunur eykst

Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu námu 24,6 milljörðum króna samanborið við 19,5 milljarða á sama tíma á árinu 2010. Á þriðja ársfjórðungi námu hreinar vaxtatekjur 7,7 milljörðum samanborið við 5,8 milljarða á þriðja ársfjórðungi 2010. Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 3,0% miðað við 2,4% á öllu árinu 2010. Í tilkynningunni er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra, að afkoma bankans sé viðunandi miðað við stöðuna í efnahagslífinu um þessar mundir og staða bankans sé áfram sterk: ,Það sjáist á því að mikill hagnaður bankans í fyrra og á fyrri hluta þessa árs hafi fyrst og fremst byggst á óreglulegum liðum eins og gengishagnaði. Grunnreksturinn sé traustur og fari batnandi, en hagnaður af honum sé hóflegur.