Landsbankinn og Kaupþing gáfu í síðustu viku út skuldabréf fyrir samtals einn milljarð evra, á kjörum sem eru mun betri en álag á skuldatryggingar þeirra gefur til kynna, að því er fram kemur á vef Euroweek.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Landsbankinn fjármagnað allar endurgreiðslur á langtímalánum bankans þetta ár, en lántökur hans frá áramótum nema um 700 milljónum evra, eða um 80 milljörðum króna.

Samkvæmt frétt Euroweek gaf Landsbankinn út eitt skuldabréf til þriggja ára fyrir 350 milljónir evra í síðustu viku, á 7,25% vöxtum, og eitt til tveggja ára fyrir 150 milljónir evra á 7% vöxtum. Euroweek hefur eftir talsmanni bankans að lausafé hans hafi verið nægt til 12 mánaða áður en þessir samningar voru gerðir, en bankinn horfi nú til fjármögnunar ársins 2009, þar sem fjármögnun allra endurgreiðslna á langtímalánum bankans í ár hafi verið tryggð.

„Árið 2009 verður stærra hjá okkur,“ hefur blaðið eftir talsmanninum. „Þær [endurgreiðslurnar] eru nokkuð vel dreifðar yfir árið, en heildarfjármögnunarþörf okkar er eitthvað yfir tveimur milljörðum evra. Við höfum hug á því að fjármagna hluta af þessu fyrirfram árið 2008.“

Skuldabréf Kaupþings í síðustu viku voru þrjú; eitt nam 300 milljónum evra og var til þriggja og hálfs árs, en hin tvö voru til tveggja og hálfra ára og námu 100 milljónum evra hvort.

Vextir á því fyrrnefnda voru 7,7% og þeim síðarnefndu 7,5%. Skuldatryggingaálag Landsbanka var í gær 575 punktar og hafði lítið breyst frá því í fyrradag.

Álag Kaupþings var 803 punktar, sömuleiðis lítið breytt. Álagið hefur farið lækkandi að undanförnu, í samræmi við iTraxx-vísitöluna yfir skuldatryggingaálag 25 stærstu fjármálafyrirtæki heims, sem hefur lækkað um 30% frá mánaðarmótum.