Landsbankinn á 47 fyrirtæki með beinum og óbeinum hætti. Aðeins eitt fyrirtæki í rekstri af hálfu bankans á neytendamarkaði er í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki. Það er fyrirtækið Sólning í Kópavogi sem bankinn tók yfir í sumar. Stefnt er að því að selja fyrirtækið í byrjun næsta árs.

Landsbankinn sendi frá sér tilkynningu í dag í tengslum við flutning frétta af því að bankarnir eigi samanlagt 137 fyrirtæki sem væru með einhverjum hætti í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki á neytendamarkaði og skekkti samkeppnisstöðuna. Landsbankinn segir það algjöran misskilning.

Arion Banki sendi frá sér sambærilega tilkynningu í dag. Þar kom fram að bankinn eigi ráðandi hlut í 32 fyrirtækjum í óskyldri starfsemi. Meirihluti þeirra er öðrum hvoru megin við þrotabrúnina.

Bent er á að Landsbankinn eigi beint hltuafé í 6 fyrirtækjum. Það eru Framtakssjóði Íslands, Stoðum, Icelandic Group, Hampiðjunni, Reitum og Marel. Þá eru 9 fyrirtæki skráð á Horn fjárfestingarfélag, 18 skráð á fasteignafélagið Reginn og 14 skráð á Hömlur.

Þá kemur fram að endurskipulagningu skulda fyrirtækja verði lokið snemma á næsta ári. Með skráningu félaganna Horn og Regins á markað verði eign Landsbankans í fyrirtækjum hverfandi.