Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum á hann í dag 84 íbúðir sem hann hefur leyst til sín vegna veðkrafna fyrir skuldum einstaklinga. Hluti þeirra komst í eigu bankans fyrir bankahrunið síðasta haust. Landsbankinn hafði verið stærstur á íslenskum bankamarkaði með víðtækasta útibúanetið og mesta hlutdeild á einstaklingsmarkaði svo það er kannski ekkert óvenjulegt að hann sitji uppi með margar eignir.

Ekkert fasteignafélag hefur verið leyst til bankans til þessa. Í dag á Landsbankinn um 14 eignir sem flokkast sem atvinnuhúsnæði í heildina, en það verður þó að taka með í reikninginn að eitt heimilisfang getur verið með fjölda eignarhluta þannig að þessar 14 eignir hafa um 30 eignarhluta eða einingar, samkvæmt upplýsingum sem fengust frá bankanum. Þar fengust einnig upplýsingar um að sá háttur er hafður á að sala á eignum fer í gegnum þriðja aðila og er bankinn í samstarfi við nokkrar fasteignasölur.