Samkvæmt frétt Financial Times er Landsbankinn að bjóða í breska verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood. Heimildir blaðsins herma að tilboðið hljóði upp á 70-75 pens á hlut en samkvæmt því er breska fyrirtækið verðlagt á um 4,7 ma.kr. Teather & Greenwood er eitt af smærri verðbréfafyrirtækjum Bretlands. Það á sér 130 árs sögu og var skráð á hlutabréfamarkað árið 1998. Áhersla þess er á verðbréfamiðlun fyrir fagfjárfesta ásamt ráðgjöf.

Gengi Teather & Greenwood hefur hækkað skarpt frá áramótum, eða um 27%, sem er nær öruggt merki um að bréfunum hafi verið safnað. Markaðsverð er 4,1 ma.kr. og V/I miðað við það er 4,0.