Landsbankinn segir jákvætt að gengið hafi í gegn gengislánadómur í gær sem varpi frekari ljósi á það hvernig Hæstiréttur telur að standa eigi að endurútreikningi á gengislánum. Hann telur hins vegar ekki að dómurinn muni hafa umtalsverð áhrif á fjárhag bankans. Bankinn segist hafa tekið tillit til mögulegra áhrifa Hæstaréttaréttardóma frá í fyrra og gjaldfærði þá 38 milljarða króna undir liðnum „Tap af gengistryggðum útlánum og kröfum á viðskiptavini“ til samræmis við sviðsmynd sem FME óskaði eftir að fjármálafyrirtæki notuðu sem viðmið við útreikning á áhrifum dómsins.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum segir að verið sé að yfirfara dóm Hæstaréttar með tilliti til fordæmisgildis. Hann staðfesti fordæmisgildi dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 síðastliðnum um gildi fullnaðarkvittana.

Málið snýr að því að samningsvextir gengislána skuli standa og óheimilt sé að reikna gengislán afturvirkt. Í málinu sem Arion banki tapaði í gær gegn Borgarbyggð kemur fram að Borgarbyggð skuldi bankanum 128 milljonir króna. Áður en málið hófst var talið að lánið stæði í 359 milljónum. Ef miðað var við afturvirka útreikninga samkvæmt svokölluðum Árna Páls-lögum stóð það hins vegar í 213 milljónum króna.

Skarphéðinn Pétursson, lögmaður Borgarbyggðar í málinu, sagði dóminn geta þýtt að í tilfelli styttri lána hafi margir ofgreitt erlend lán sín og fjölmargir átt rétt á endurgreiðslum.

Hann bætir við:

„Í báðum þessum málum var um að ræða langtímalán með gengistryggingu sem greitt hafði verið af með skilvísum hætti og í góðri trú í lengri tíma í samræmi við útsenda greiðsluseðla. Í málunum var talið að uppfyllt væru tiltekin skilyrði fyrir því að víkja frá þeirri meginreglu kröfuréttar að krefja skuldara um viðbótargreiðslur vegna greiddra samningsvaxta aftur í tímann.

Enn eru þó óútkljáð ákveðin álitamál sem hafa verið send dómstólum eða verða send þeim á næstunni og nauðsynlegt er að fá skorið úr áður en hægt verður að ljúka öllum útreikningum.

Rétt er að ítreka það sem áður hefur komið fram, að í þeim tilfellum þar sem niðurstaðan verður sú að lán verði endurreiknað á ný, mun innheimta til framtíðar að sjálfsögðu taka mið af leiðréttum eftirstöðvum. Hugsanlegar ofgreiðslur verða þannig leiðréttar.“