Þrátt fyrir mikinn óróleika á fjármálamörkuðum álíta forsvarsmenn Irish Nationwide Building Society í Dyflinni að enn sé áhugi fyrir hendi meðal fjárfesta að kaupa bankann sem hefur verið í sölumeðferð um nokkurt skeið. Í Hálffimm fréttum Kaupþings segir að Landsbankinn hafi frá því í ágúst verið orðaður við írska bankann en einnig eru HBOS og Quilan Private nefndir til sögunnar. Samkvæmt frétt írskra fjölmiðla er verðmiðinn á bankanum um 1,5 milljarðar evra, jafnvirði 140 milljarða króna.

Viðræður við Close Brothers

Samkvæmt því sem segir í Hálffimm fréttunum hefur Landsbankinn ekki einungis verið orðaður við Irish Nationwide. Þann 8. nóvember sendi bankinn frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar í Lundúnum um að bankinn og Cenkos Securities ættu í sameiginlegum viðræðum við stjórn Close Brother Group í Lundúnum um hugsanlegt tilboð í breska bankann upp á 950 pens á hlut. Ætlun Landsbankans er að taka yfir bankahluta Close Brothers en eftirláta Cenkos aðra rekstrarþætti.