Hömlur ehf., dótturfélag Landsbankans hf., hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast sölu á öllu hlutafé í Björgun ehf . Björgun rekur sanddæluskip og búnað til að stunda verktöku, einkum hafnardýpkanir, og er umfangsmikill efnissali til þeirra sem sinna mannvirkjagerð á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynninu frá bankanum, sem auglýsir söluferlið í dag.

„Söluferlið hefst þann 5. maí og er opið öllum áhugasömum fjárfestum sem standast hæfismat og sýnt geta fram á fjárfestingargetu að upphæð 400 milljónir króna. Unnt er að nálgast frekari upplýsingar um söluferlið og öll nauðsynleg gögn um fyrirtækið á vef Landsbankans. Tímafrestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum rennur út kl. 12:00, föstudaginn 3. júní 2011.

Þeim fjárfestum sem skila inn hagstæðustu tilboðunum að mati seljanda verður boðin þátttaka í öðru stigi söluferlisins. Tímafrestur til að skila inn skuldbindandi tilboðum rennur út kl. 12:00, miðvikudaginn 29. júní 2011. Stefnt er að því að söluferlinu ljúki fyrir lok júlí 2011,“ segir í tilkynningu.

Ennfremur segir:

Um Björgun

Björgun var stofnað 11. febrúar árið 1952. Félagið er leiðandi framleiðandi steinefna til hverskonar mannvirkjagerðar á Íslandi. Félagið aflar hráefnis úr námum, bæði á hafsbotni með uppdælingu efnis og á landi með hefðbundnum hætti. Efnið er eftir atvikum flutt til frekari vinnslu á athafnasvæði félagsins við Sævarhöfða í Reykjavík.

Björgun hefur um árabil stundað verktöku af ýmsu tagi, svo sem hafnardýpkun, uppdælingu á efni til landfyllinga og uppdælingu á efni til frekari nýtingar á vegum annarra. Á síðari árum hefur Björgun staðið að landþróunarverkefnum, bæði á eigin vegum og í samvinnu við aðra. Verkefnin eiga það sammerkt að felast í uppbyggingu sjávarlóða á höfuðborgarsvæðinu.