Landsbankinn hyggst auglýsa verktakafyrirtækið Ístak Ísland til sölu um mánaðamótin og verður starfsemin í Noregi sett í söluferli í desember. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Unnið er að því að færa rekstur Ístaks á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum inn í dótturfélagið Ístak Íslands. Þetta segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, í samtali við Fréttablaðið.

"Það er nú unnið við að skipta fyrirtækinu upp og það þarf að ganga frá efnahagnum og búa til fyrirtæki úr hverri einingu. Svo munum við fara að leita að kaupendum og við stefnum að því að það verði gert öðrum hvorum megin við næstu mánaðamót," segir Kristján.

Landsbankinn eignaðist Ístak í september 2013 þegar danska móðurfélagið Pihl & Søn varð gjaldþrota.