Í yfirlýsingu sem Landsbankinn hefur sent frá sér í kjölfar málshöfðunar Lífeyrissjóðs bankamanna á hendur Landsbanka Íslands kemur fram að þeir telja að krafan eigi að beinast að ríkissjóði. Landsbankinn - ríkisbanki gerði ásamt öðrum aðildarfyrirtækjum Lífeyrissjóðs bankamanna samkomulag við sjóðinn á árinu 1997 um fullnaðaruppgjör sem lífeyrissjóðurinn samþykkti fyrir sitt leiti á fundi sjóðsfélaga. Við það telja þeir að bakábyrgð aðildarfyrirtækjanna hafi fallið niður og því eigi lífeyrissjóðurinn ekki lögvarða kröfu á hendur fyrirtækjunum.

Í yfirlýsingu Landsbankans er bent á að Lífeyrissjóður bankamanna hefur stefnt ríkinu samhliða Landsbankanum. Vekur bankinn athygli á að samningsgerðin sem stefnan nær til var á ábyrgð Landsbankans -- ríkisbanka og var hún gerð í tengslum við stofnun hlutafélags um rekstur bankans og upphaflega sölu hlutafjár. "Komi til þess að ábyrgð á málinu verði viðurkennd hlýtur sú krafa að beinast að ríkissjóði. Landsbankinn og núverandi hluthafar hans hljóta því að gera fyrirvara um þenan þátt málsins," segir í yfirlýsingunni.