Alþjóðlega fjármálatímaritið The Banker hefur valið Landsbankann sem besta banka á Íslandi árið 2020. Áður hafði fjármálatímaritið Euromoney einnig útnefnt Landsbankann sem besta banka á Íslandi 2020, annað árið í röð.

Í umsögn dómnefndar The Banker segi að íslenskur bankamarkaður einkennist af mikilli nýsköpun og sterkri þjónustuhefð. Landsbankinn hafi staðið sig vel á báðum þessum vígstöðvum og þar að auki hafi rekstrarniðurstaða bankans verið tiltölulega sterk.

The Banker segir að töluverðan hluta af velgengni bankans megi rekja til sterkrar stöðu á íbúðalánamarkaði. Bankinn hafi boðið hagstæð kjör og aukinn stuðning við fyrstu kaupendur sem hafi skilað sér í umtalsverðum útlánavexti. Þegar eftirspurnin jókst hafi bankinn sýnt góða aðlögunarhæfni og nýtt vel krafta starfsfólks.

Í umsögninni er einnig vikið að stafrænni þróun og þá sér í lagi lausnum og reiknilíkönum þar sem búið er að ákvarða með sjálfvirkum hætti hversu há lán er hægt að veita í sjálfsafgreiðslu og viðskiptavinir geta sjálfir sótt og afgreitt útlán í netbanka eða appi.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu:

„Við höfum lagt áherslu á að bjóða hagstæð kjör á lánum og tryggja að lántökuferlið sé bæði einfalt og skilvirkt. Þetta hefur leitt til þess að mun fleiri kjósa að taka íbúðalán hjá okkur og fjöldi nýrra viðskiptavina hefur bæst í hópinn. Þá hefur áhersla á stafræna framþróun og tæknilega uppbyggingu gert okkur kleift að kynna fjölda nýrra stafrænna lausna og er óhætt að segja að á undanförnum árum hafi orðið umbylting á þjónustu bankans, bæði við einstaklinga og fyrirtæki. Viðurkenning The Banker er ánægjuleg viðurkenning á árangri bankans. Við ætlum að halda áfram að bjóða framúrskarandi stafrænar lausnir með mannlegri nálgun. Þannig einföldum við fólki lífið."