„Þetta er hugsað sem samantekt af mánuðinum á undan og horfum framundan,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans. Deildin blés í dag lífi í yfirlitsritið Vegvísi sem kom út daglega á vegum greiningardeildar gamla Landsbankans en hefur legið í dvala í þrjú ár.

Deildin hefur fram til þessa birt sambærilegt yfirlit innan bankans sem ekki hefur verið ætlað til útgáfu utan veggja hans.

Rit með sama nafn kom út því sem næst daglega á vegum greiningardeildar gamla Landsbankans. Forstöðumaður deildarinnar á sínum tíma var Edda Rós Karlsdóttir sem nú vinnur hjá sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi.

Hluti af starfi greiningardeildarinnar á sínum tíma var greining á hlutabréfum. Hann fór á hliðina í hruninu. Eftir að gamli bankinn fór í þrot um svipað leyti fyrir rétt rúmum þremur árum - í október árið 2008 - var greiningardeildin lögð niður. Vegvísir og önnur rit komu óreglulega út á vegum Hagfræðideildarinnar um stutt skeið.

Vegvísir mun framvegis koma út mánaðarlega. Þar verður fjallað um þróun og horfur í efnahagsmálum og tæpt á helstu hagvísum hér heima og erlendis hverju sinni. Áætluð tölublöð verða tíu á ári. Ritið mun einnig verða birt á ensku fáeinum dögum eftir útgáfu á íslensku.

Daníel, sem var hjá Seðlabankanum áður en hann tók við Hagfræðideildinni í fyrravor, segir ekki stefnt að daglegri útgáfu Vegvísis á ný. Hann bendir á að deildin standi fyrir annarri útgáfu, svo sem vikuritinu Vikubyrjun og Hagsjá, sem kemur út þegar tilefni þykir.

Öðru máli gegnir um Hagfræðideild Landsbankans en greiningardeildir hinna stóru bankanna. Hún heyrir undir áhættustýringu Landsbankans og lýtur strangari reglum en hinar deildirnar.

Daníel Svavarsson forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans
Daníel Svavarsson forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans
© Aðsend mynd (AÐSEND)