Landsbankinn er byrjaður að endurreikninga lán í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli Plastiðjunnar gegn Landsbankanum á dögunum. Bankinn segir dóminn hafa víðtæk áhrif á það hvernig leiðréttingu lána sem áður hafa verið endurreiknuð skuli háttað. Lánin skipti tugum þúsunda og vinna við leiðréttingu muni því taka nokkurn tíma. Vonir standa til að vinnunni ljúki fyrir áramót.

Í framhaldi af dómi Hæstaréttar í máli 464/2012 hófst Landsbankinn handa við að leiðrétta endurreikning þeirra fasteignalána einstaklinga sem uppfylltu þau skilyrði sem þar komu fram. Þeirri vinnu er nú að mestu lokið.

Í tilkynningu Landsbankans segir að fyrstu útreikningar vegna leiðréttingar á endurreikningi bílalána sem falla undir fordæmi dómsins verði birtir viðskiptavinum í byrjun júlí. Þá verða fyrstu útreikningar vegna leiðréttinga annarra lána einstaklinga en fasteigna- og bílalána birtir viðskiptavinum strax í þessum mánuði. Innan tíðar mun bankinn einnig hefjast handa við leiðréttingu lána lögaðila.