Tekið var tilboðum í 325 milljónir hluta í hlutafjárútboði Regins sem lauk í gær og þeir seldir fyrir 4.068.086.687 krónur. Eftirspurnin var tvöfalt meiri en fjárfestar óskuðu eftir því að kaupa tæplega 608,5 milljón hluti í félaginu fyrir tæpa 7,6 milljarða króna. Þetta svaraði til 25% af útgefnu hlutafé Regins sem var í eigu Eignarhaldsfélags Landsbankans, sem heldur utan um eignarhluti í félögum sem bankinn á. Talsverð ánægja er innan Landsbankans með söluna.

Fram kemur í tilkynningu að samþykkt tilboð voru á bilinu 12,20 til 12,81 króna á hlut og var vegið meðalgengi samþykktra tilboða 12,52 krónur á hlut. Af samþykktum tilboðum þurfa einungis þeir fjárfestar sem buðu 12,20 krónur á hlut að sæta skerðingu. Til samanburðar stóð gengi hlutabréfa Regins í 12,45 krónum á hlut í gær.

Ánægður með söluna á Regin

Í tilkynningu er rifjað upp að í kjölfar hrunsins hafi Landsbankinn eignast umtalsvert af stærri fasteignum vegna fjárhagserfiðleika viðskiptavina. Þeim eignum var komið fyrir í fasteignafélaginu Reginn og mikil áhersla lögð á að losa þær frá bankanum eins hratt og auðið var en þó í opnu söluferli.

„Skráning Regins á markað fyrir ári og sala á 75% hlut, og nú á þeim hlut sem eftir stóð til fjölda fjárfesta, auk hagstæðrar þróunar á hlutafjárverði félagsins, er allt vísbending um að vel hefur tekist til við þetta verkefni. Með þessu hefur bankinn reynst það hreyfiafl sem hann vill vera og náð því markmiði að stuðla að uppbyggingu hlutabréfamarkaðar á Íslandi.“