*

miðvikudagur, 8. apríl 2020
Innlent 13. mars 2020 18:06

Landsbankinn býður frestun afborgana

Viðskiptavinir geta sótt um frest á greiðslum af íbúðalánum ef sjá fram á að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna kórónaveiru.

Ritstjórn
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Kristinn Ingvarsson

Landsbankinn hyggst bjóða ýmis úrræði fyrir einstaklinga sem sjá fram á að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna óvæntra aðstæðna, s.s. atvinnumissis eða veikinda, m.a. að sækja um að fresta greiðslum af íbúðalánum. Ýmsar lausnir eru einnig í boði fyrir fyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankann og lenda í tímabundnum erfiðleikum að því er bankinn hefur tilkynnt um.

Vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 frá Wuhan borg í Kína, biður bankinn þó viðskiptavini sína vinsamlegast um að nýta sér stafræna þjónustu bankans ef þess er kostur, fremur en að koma í útibú. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa bæði Arion banki og Íslandsbanki boðið slíkar aðgerðir fyrir sína viðskiptavini.

Landsbankinn segir jafnframt að í Landsbankaappinu og netbankanum sé hægt að breyta yfirdráttarheimild, skipta kreditkortareikningum og fá Aukalán til allt að 5 ára.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Við ætlum að vinna með og styðja við okkar viðskiptavini á meðan þetta gengur yfir og bankinn er vel í stakk búinn til að takast á við þetta tímabundna ástand.“

Jafnframt segir í tilkynningu að bankinn hvetji þá viðskiptavini sem sjá fram á greiðsluerfiðleika að hafa sem fyrst samband við bankann til að fá lausnir og ráðgjöf við hæfi. Hægt sé að hringja í Þjónustuver í s. 410 4000, senda tölvupóst í netfangið landsbankinn@landsbankinn.is eða ræða við okkur í netspjallinu sem er aðgengilegt á vef bankans.