Landsbankinn hefur ákveðið að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum 25% höfuðstólslækkun lána í erlendri mynt gegn því að láni sé breytt í verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum.

Þetta kom fram á vef Landsbankans í gærkvöldi en þar segir að bankaráð Landsbankans hafi jafnframt samþykkt aðrar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum, einstaklingum og heimilum til að styðja við endurreisn íslensks efnahagslífs.

Fyrirtækjum sem tekið hafa lán í erlendri mynt verður samkvæmt þessu boðið að sækja um höfuðstólslækkun en í útreikningi á lækkun höfuðstóls verður miðað við stöðu lána þann 30. apríl 2010.

Öll rekstrar- og fasteignafélög sem tóku lán í erlendri mynt fyrir 8. október 2008 geta sótt um lækkunina. Fram kemur að þetta sé tímabundið úrræði og verður í boði til 30. júlí.

Hvað heimilin varðar þá hefur bankinn að sama skapi ákveðið að bjóða þeim höfuðstólslækkun á lánum í erlendri mynt. Afsláttur verður 25% á öll slík lán sem breytt er í íslenskar krónur, eða greidd upp, óháð lánstíma og nær til höfuðstóls og áfallinna vaxta.

Þá verður jafnframt hægt að greiðslujafna erlend lán sem tekin voru til annars en húsnæðiskaupa.

Loks kemur fram að fyrirtæki og einstaklingar sem nýta sér höfuðstólslækkun afsali sér ekki réttindum ef erlend lán verða dæmd ólögleg.

Landsbankinn fylgir þar með í kjölfar Íslandsbanka sem fyrir nokkru tilkynnti um lækkun höfuðstóls lána í erlendri mynt.