Landsbankinn býður nú upp á frestun afborgana höfuðstóls og vaxta lána í erlendri mynt.

Um er að ræða frest þar til í mars og gildir þetta um lán í erlendri mynt með veði í fasteign. Næsti gjalddagi afborgana og vaxta yrði þá í apríl á næsta ári.

Þetta kemur fram á heimasíðu Landsbankans. Einnig er hægt að sækja um frestun afborgana þar sem einungis vextir eru greiddir þar til í maí 2009. Gjalddagar til og með maí verða þá vaxtagjalddagar en fyrsta greiðsla afborgana og vaxta verður í júní 2009.

Skilafrestur umsókna vegna frestunar á greiðslum afborgana og/eða vaxta með gjalddaga í janúar, er 15. desember næstkomandi.

Í tilkynningunni frá Landsbankanum segir að síðasti gjalddagi verði að vera í skilum svo hægt sé að veita frestun.  Ef svo er ekki þurfi að skoða önnur úrræði.