Landsbankinn eignaðist í dag 99,9% hlutafé í verktakafyrirtækinu Ístaki. Ístak var áður dótturfélag danska verktakarisans E. Phil & Søn, sem var lýstur gjaldþrota mánudaginn 26. ágúst síðastliðinn. Fram kemur í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér nú í kvöld að hann sé stærsti lánveitandi Ístaks og vilji með þessu skapa trúverðugt eignarhald á félaginu svo það geti áfram sinnt starfsemi sinni og staðið við skuldbindingar sínar. Landsbankinn ætlar að selja fyrirtækið fjárfestum með nauðsynlega þekkingu og fjárfestingargetu eins fljótt og auðið er. Samkeppniseftirliti hefur verið gerð grein fyrir kaupunum.

Ný stjórn hefur þegar verið skipuð yfir Ístaki og er tekin til starfa. Ekkert er gefið upp um kaupverðið.

Besta leiðin til að verja verðmæti

Í tilkynningu Landsbankans er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, að bankinn hafi þurft að bregðast hratt við í viðkvæmri stöðu vegna gjaldþrots danska móðurfélagsins. „Sú ákvörðun að kaupa  Ístak er að okkar mati besta leiðin til að verja þau verðmæti sem búa í rekstri félagsins og orðspori þess sem alþjóðlegt verktakafyrirtæki. Með eignarhaldi bankans er dregið úr óvissu og við teljum enga ástæðu til að ætla annað en að fyrirtækið geti haldið áfram að dafna,“ segir hann. Unnið hefur verið að þessari lausn á málum Ístaks síðustu daga í samvinnu við skiptastjóra og kröfuhafa þrotabús E.Phil & Søn í Danmörku og núverandi stjórnendur,sem allir munu áfram starfa hjá Ístak.

Þá segir í tilkynningunni að rekstrar- og verkefnastaða Ístaks er góð og þeir erfiðleikar sem móðurfélagið E.Phil & Søn hefur átt við að glíma tengist með engum hætti starfsemi Ístaks.

Ístak mun samkvæmt samkomulagi við skiptastjóra semja við verkkaupa þeirra verkefna sem félagið sinnti fyrir hönd E.Pihl & Søn, taka yfir verksamninga og verkábyrgðir og ljúka verkefnum í eigin nafni.