Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hefur uppfært til áramóta mat á eignum bankans frá því í september s.l. Samkvæmt því uppfærða mati, sem unnið er af sérfræðingum bankans, er gert ráð fyrir að um 1.172 milljarðar kr. fáist fyrir eignir upp í kröfur á hendur bankanum. Bókfærðar innlánskröfur á hendur bankanum nema um 1.319 milljörðum kr. og eru að langstærstum hluta vegna innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Miðað við framangreindar forsendur er áætlað að unnt verði að úthluta um 89% upp í forgangskröfur eða um það bil einu prósentustigi meira en áætlað var við síðasta eignamat.

Í tilkynningu slitastjórnar er tekið fram að endanleg fjárhæð krafna og rétthæð þeirra ræðst af afstöðu slitastjórnar og eftir atvikum niðurstöðu dómstóla. Athygli er vakin á að peningaeign bankans nam 194 milljörðum króna við s.l. áramót og gert er ráð fyrir að um 126 milljarðar kr. bætist við á þessu ári. Samtals er því gert ráð fyrir að peningaeign bankans nemi um 320-330 milljörðum króna í lok þessa árs.