Vodafone mun annast alla símaþjónustu fyrir Landsbankann næstu þrjú árin, samkvæmt nýjum samningi milli fyrirtækjanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone. Þar segir að um sé að  ræða endurnýjun á eldri samningi.  Landsbankinn hafi gengið til samninga við Vodafone að undangenginni verðkönnun á alhliða fjarskiptaþjónustu.

Í tilkynningunni segir að samningurinn nái til allrar símaþjónustu, bæði farsíma- og fastlínuþjónustu, auk þess sem Vodafone muni  sjá um heimanettengingar starfsmanna Landsbankans. Nýi samningurinn sé umfangsmeiri en sá gamli, þar sem að nú verði  um 180 farsímanúmer í eigu bankans sem áður voru þjónustuð af öðrum símafyrirtækjum flutt yfir til Vodafone.