Frá og með deginum í dag mun hluti viðskiptavina Landsbankans með erlend fasteignalán geta séð endurútreikning í Einkabankanum. Þar birtist þeim nýr höfuðstóll láns þeirra í íslenskum krónum eins og kveðið er á um í nýsamþykktum lögum um vexti og verðtryggingu.

Landsbankinn mun endurútreikna um 2700 lán þegar allt er talið, en nú liggur fyrir endurútreikningur 1200 þeirra. Samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu sem samþykkt voru á Alþingi 18. desember hafa fjármálastofnanir 60 daga frá samþykkt laganna til að birta viðskiptavinum niðurstöðu útreikningsins.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að eftir áramót verði hægt að staðfesta endurútreikninginn og velja um nýtt verðtryggt eða óverðtryggt lán í íslenskum krónum.

„Endurútreikningurinn er framkvæmdur miðað við lægstu vexti á nýjum almennum verðtryggðum og óverðtryggðum útlánum lánastofnana sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir. Sú niðurstaða sem er lántaka hagstæðari myndar nýjan höfuðstól lánsins en til samanburðar eru báðar leiðir birtar.

Algengt er að höfuðstóll erlendra lána lækki um 37% við endurútreikning, þó dæmi séu um mun meiri lækkun. Þeim sem fá minna en 25% lækkun við endurútreikning stendur áfram til boða 25% lækkun höfuðstóls samkvæmt úrræðum Landsbankans. Á vef Landsbankans, landsbankinn.is, eru raundæmi um áhrif endurútreiknings á höfuðstól lána.

Breyting úr láni í erlendri mynt í  lán í íslenskum krónum getur haft í för með sér verulegar breytingar á greiðslubyrði þar sem vextir íslenskra lána eru almennt hærri en lána í erlendri mynt.  Viðskiptavinum Landsbankans standa því til boða lausnir til að lækka greiðslubyrðina eftir að endurútreikningur hefur farið fram, þurfi þeir á því að halda. Einnig mun standa til boða að vera áfram með lán í erlendri mynt.

Nánari upplýsingar um endurútreikning og lausnir fyrir heimili og fyrirtæki í skuldavanda er hægt að nálgast á vef Landsbankans, landsbankinn.is eða í næsta útibúi.“