Útibú Landsbankans og Spkef í Reykjanesbæ hafa verið sameinuð undir eina stjórn undir nafni Landsbankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en nýtt útibú verður til húsa þar sem áður var útibú og höfuðstöðvar Spkef við Tjarnargötu í Reykjanesbæ og afgreiðslur verða áfram í Njarðvík, Garði, Vogum og Sandgerði þar sem Spkef hafði afgreiðslu. Að auki munu afgreiðslur Landsbankans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar heyra undir hið sameinaða útibú.

Sem kunnugt er hefur Landsbankinn yfirtekið rekstur Spkef. Í tilkynningunni kemur fram að staða útibússtjóra hins nýja sameinaða útibús var auglýst laust til umsóknar í dag.

Þá kemur fram að allir þeir starfsmenn sem unnið hafa við afgreiðslu í útibúum Landsbankans og Spkef í Reykjanesbæ og á fyrrgreindum afgreiðslustöðum munu starfa áfram hjá sameinuðu fyrirtæki. Starfsmenn Landsbankans sem fyrir voru í útibúi bankans við Hafnargötu í Reykjanesbæ munu á næstunni flytjast í útibúið í Tjarnargötu. Enn er unnið að útfærslu hugmynda vegna starfa sem unnin voru í höfuðstöðvum Spkef í Reykjanesbæ.

Þeir Almar Þór Sveinsson útibússtjóri Landsbankans og Einar Hannesson fyrrverandi sparisjóðsstjóri munu leiða starfsemina þar til ráðinn hefur verið útibússtjóri. Berglind Rut Hauksdóttir sem verið hefur afgreiðslustjóri í útibúi Landsbankans verður aðstoðarútibússtjóri hins nýja sameinaða útibús, Alda A. Gylfadóttir sem áður var sérfræðingur á fyrirtækjasviði Spkef verður þjónustustjóri fyrirtækja, en Björn Kristinsson sem áður var útibússtjóri Spkef á Tjarnargötu verður þjónustustjóri einstaklinga.