Landsbankinn er enn neðanmáls á hryðjuverkalista breska fjármálaráðuneytisins. Á listanum eru ríki og samtök sem bresk stjórnvöld hafa beitt  fjármálalegum refsiaðgerðum vegna hryðjuverka.

Efst á listanum eru al-Qaeda og talibanar í Afganistan. Landsbankinn var settur á listann í kjölfar þess að bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir bankans þar í landi vegna Icesave-reikninganna.

Vegna þrýstings frá m.a. sendiherra Íslendinga í Bretlandi var Landsbankinn tekinn af sjálfum listanum en settur þar neðanmáls. Þar var því bætt við og tekið fram að frysting eigna bankans tengdist ekki hryðjuverkum.

Landsbankinn er enn neðanmáls þrátt fyrir að samkomulag hafi náðst um lausn Icesave-deilunnar.

Spyr út í beitingu hryðjuverkalaganna

Atli Gíslason, þingmaður VG, sendi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fjölmargar skriflegar fyrirspurnir fyrir helgi. Ein þeirra lýtur að beitingu hryðjuverkalaganna. Hann vill m.a. að upplýst verði hvers vegna Bretar afléttu ekki beitingu hryðjuverkalaga gagnvart Íslandi þegar samkomulag var gert um lausn Icesave-deilunnar.

Lista breska fjármálaráðuneytisins má finna hér .