Landsbankinn [ LAIS ]hefur enn áhuga á að yfirtaka bankastarfsemi Close Brothers, að sögn greiningardeildar Glitnis, þrátt fyrir að samstarfsaðili Landsbankans, Cenkos Securities, hafi hætt við yfirtöku á Close Brothers.

“Landsbankinn telur greinilega mikil verðmæti fólgin í bankastarfsemi Close Bothers enda yrðu  kaupin til þess að styrkja alþjóðlega starfsemi bankans og verða til þess að tekjur utan Íslands yrðu  60% af heildartekjum. Bankastarfsemi Close Brothers er vel fjármögnuð, en innlán nema 117% af útlánum, og hefur bankastarfsemin sýnt mjög stöðuga og góða afkomu síðastliðinn ár,” segir greiningardeildin.

Landsbankinn tilkynnti í gær að hann myndi ekki yfirtaka bankahluta Close Brothers í samstarfi við Cenkos líkt og lýst var yfir í tilkynningu 14. janúar.

Þessar fregnir koma í kjölfarið á tilkynningu Cenkos Securities um að það muni ekki leggja fram tilboð í Close Brothers Group.