Gengi hlutabréfa í Oslo Börs VPS, sem á kauphöllina í Osló, hefur hækkað um fjórðung á einum mánuði og um tæpan helming á síðustu þremur mánuðum. Greint er frá í Morgunpósti IFS greiningar. Landsbankinn (NB) á 6,5% hlut í félaginu. Segir að samrunar nokkurra stórra kauphalla hafi sennilega haft áhrif á verðþróunina.

Kauphöllin hagnaðist um 59,8 milljónir norskra króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, sem var verulegur viðsnúningur á milli ára. Lagt er til að greiddar verði átta norskar krónur í arð á hlut fyrir síðasta ár. Það myndi færa Landsbankanum um 450 milljónir íslenskra króna, að því er segir í Morgunpósti IFS greiningar.