*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 5. október 2018 09:20

Landsbankinn fær 8,5 milljarða hjá NIB

Landsbankinn fær 8,5 milljarða lán hjá Norræna fjárfestingabankanum til að fjármagna lítil og meðalstór fyrirtæki.

Ritstjórn
Lilja Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir samstarfið við NIB afar árangursríkt.
Kristinn Ingvarsson

Landsbankinn og Norræni fjárfestingabankinn (NIB) hafa undirritað lánasamning þar sem Landsbankinn fær lánveitingu að fjárhæð 75 milljónir Bandaríkjadala, um 8,5 milljarðar króna, til sjö ára sem ætluð er til fjármögnunar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og verkefnum tengdum umhverfismálum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Um er að ræða þriðja lánasamninginn sem NIB gerir við Landsbankann en eldri samningar eru frá árunum 2015 og 2017.

„Samstarf Norræna fjárfestingabankans og Landsbankans hefur reynst afar farsælt. Í samstarfi við Landsbankann getum við náð til fjölda lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi með langtímafjármögnun í Bandaríkjadölum.“ Er haft eftir Henrik Normann, forstjóra Norræna fjárfestingabankans.

Lilja Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Samstarfið við NIB er afar árangursríkt fyrir Landsbankann. Með því fáum við í senn bætt lánskjör og getum betur stutt við sjálfbæran og stöðugan vöxt íslenskra fyrirtækja.“

NIB er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarríkja: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar bæði til verkefna í opinbera og einkageiranum jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. Lánshæfismatseinkunn NIB er AAA/Aaa frá S&P Global og Moody‘s.

Stikkorð: Landsbankinn NIB
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is