Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að ekki komi til greina að veita slitastjórn gamla Landsbankans einum undanþágu frá fjármagnshöftun án þess að tekið sé tillit til heildarlausn náist. Þetta sagði hann í hádegisfréttum RÚV. Hann segir að slíkt gæti haft alvarleg áhrif á greiðslujöfnuð og lífskjör í landinu.

Í tilkynningu sem send var fjölmiðlum á fimmtudag í síðustu viku kom fram að Landsbankinn hf. og slitastjórn LBI hf. hefðu náð samkomulagi um breytingar á uppgjörsskuldabréfum sem samið var um í desember 2009, en eftirstöðvar þeirra eru nú að jafnvirði um 226 milljarðar króna. Af hálfu slitastjórnar LBI hf. er gerður fyrirvari um að tilteknar undanþágur fáist í samræmi við lög um gjaldeyrismál.

Sigmundur Davíð sagði að hann og Bjarni Benediktsson væru sammála um afstöðu sína til málsins. „Nú skulum við bara sjá hvort að á næstu dögum og vikum verði til einhver lausn sem leyfi afléttingu hafta en það er ekki hægt að taka einn aðila út úr þessu,“ sagði hann.