Hið alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtæki Standard & Poor’s gefur Landsbankanum lánshæfiseinkunnina BB+ og telur horfurnar stöðugar. Þetta kemur fram í mati fyrirtækisins á lánshæfi Landsbankans sem birt var í dag. Þetta er sama mat og Arion banki fékk.

Í lánshæfismati S&P kemur fram að fyrirtækið álíti að Landsbankinn búi að umtalsverðu svigrúmi í lausa- og eiginfjárstöðu við erfiðar aðstæður í efnahagslífinu. Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að mat S&P á stöðugum horfum Landsbankans endurspegli þær væntingar fyrirtækisins að eiginfjárgrunnur Landsbankans muni halda áfram að styrkjast og að bankinn muni endurskipuleggja skuldabréfin sem gefin voru út til LBI og eru á gjalddaga 2014-2018.

Ennfremur segir S&P að lánshæfismatið endurspegli 'bb' grunneinkunina fyrir íslenskt fjármálakerfi og mat þeirra á „fullnægjandi" viðskiptastöðu bankans, „sterkri" eiginfjárstöðu og afkomu, „fullnægjandi" áhættustöðu, „meðaltraustri" fjármögnun og „fullnægjandi" lausafjárstöðu, í samræmi við skilgreiningu S&P á þessum mælikvörðum.

S&P lýsir þeirri skoðun sinni að Landsbankinn hafi verið vel rekinn frá stofnun árið 2008, sýnt einstaka hagkvæmni í rekstri og tekist vel að draga úr vanskilum útlána. Þrátt fyrir smæð Landsbankans í alþjóðlegum samanburði, býr hann að frekar breiðum tekjugrunni, sterkri eiginfjárstöðu og góðri afkomu, samkvæmt mati S&P.

Útreikningur S&P á hlutfalli leiðrétts eigin fjár Landsbankans á móti leiðréttum eignum (e. leverage) var yfir 20% í september 2013. Þetta hlutfall er er eitt það hæsta meðal þeirra alþjóðlegu viðskiptabanka sem S&P metur.