Landsbankinn fagnar skjótum og ákveðnum aðgerðum yfirvalda í tilkynningu sem hann sendi frá sér í kjölfar atburðanna í gærmorgun.

Þar kemur fram að bankinn telji aðgerðina jákvæða og til þess fallna að styrkja íslenska efnahagskerfið í heild sinni.

Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að lausafjárstaða Landsbankans sé sterk, endurgreiðsluferill hans léttur og viðskiptamódelið traust.

Það sé „alhliða banki sem byggir á traustri stöðu á viðskiptabankamarkaði bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði en með eignarstýringu og fjárfestingarbankastarfsemi sem mikilvægar stoðir í heildarstarfseminni.“

Bankinn segir markaðsaðila sammála um að slíkt módel geti staðist það mótlæti sem fjármálafyrirtæki glíma nú við og benda einnig á þann styrk bankans sem felist í háu hlutfalli innlána á móti útlánum.

Auk þess að fagna aðgerðunum og segja þær undirstrika staðfestu stjórnvalda til að styrkja íslenska fjármálageirann bendir bankinn á að þær muni leiða til tækifæra á frekari sameiningum hérlendis.