Landsbankinn áréttar það í tilkynningu að lán vegna hlutabréfakaupa hafi aldrei verið hluti af starfskjörum starfsmanna bankans. Sagt hefur verið frá því í fréttum að nýju viðskiptabankarnir undir stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi fellt niður kröfur eða tryggingar á hendur starfsmönnum til að forða þeim frá gjaldþroti og þar með vanhæfni til að starfa hjá bankanum.

„.. Landsbankinn [vill] taka fram að Landsbanki Íslands hf. veitti starfsmönnum ekki lán fyrir hlutabréfakaupum í bankanum sem hluta af starfskjörum. Því hefur ekki verið um neinar slíkar niðurfellingar skulda starfsmanna eða félaga þeirra að ræða hjá bankanum," segir í tilkynningunni.